Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um sjávarútveg og fiskeldi

Ákvörðun Fiskistofu um að afturkalla eldri ákvörðun úthlutun byggðakvóta.

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru frá [Y ehf.], [X hdl.], f.h. [V ehf.], hér eftir nefnt kærandi, dags. 12. desember 2016, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 13. september 2016, um að afturkalla ákvörðun stofnunarinnar, dags. 6. janúar 2016, um úthlutun af byggðakvóta Bíldudals í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 til skipsins [S].

Kæruheimild er í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

 

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 13. september 2016, um að afturkalla ákvörðun stofnunarinnar, dags. 6. janúar 2016, um úthlutun af byggðakvóta Bíldudals í Vesturbyggð til skipsins [S].

 

 

Málsatvik

Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 18. desember 2015, sem birt var í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 19. sama mánaðar, auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 í nokkrum byggðarlögum, m.a. á Bíldudal í Vesturbyggð, en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sbr. og 5. gr. reglugerðar nr. 605/2015, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2015/2016. Einnig var framangreind auglýsing birt á vefsíðu Fiskistofu og tölvupóstur með auglýsingunni sendur til viðkomandi sveitarfélaga þar sem þau voru beðin um að setja frétt um auglýsinguna inn á sínar heimasíður. Umsóknarfrestur var til og með 4. janúar 2016. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafði þá úthlutað 237 þorskígildistonnum af byggðakvóta til Vesturbyggðar á grundvelli reglugerðar nr. 604/2015, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2015/2016, sem skiptust á eftirtalin byggðarlög í Vesturbyggð: Brjánslæk, 15 þorskígildistonn, Patreksfjörð, 96 þorskígildistonn og Bíldudal, 126 þorskígildistonn. Úthlutunin var tilkynnt Vesturbyggð með bréfi, dags. 20. október 2015. Einnig hafði tiltekið magn byggðakvóta byggðarlagsins verið flutt frá eldra fiskveiðiári yfir á fiskveiðiárið 2015/2016.

Með umsókn, dags. 4. janúar 2016, sótti kærandi um úthlutun byggðakvóta fyrir skipið [S].

Með bréfum, dags. 6. janúar 2016, tilkynnti Fiskistofa útgerðum á Bíldudal í Vesturbyggð ákvarðanir sínar um afgreiðslu umsókna um úthlutun byggðakvóta til einstakra skipa. Ákvarðanir Fiskistofu voru byggðar á 10. gr. laga nr. 116/2006, ákvæðum reglugerðar nr. 605/2015, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2015/2016 og auglýsingu (V) nr. 1118/2015, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta.

Skipið [S] fékk úthlutað 267 þorskígildistonnum af byggðakvóta sem var allur byggðakvóti byggðarlagsins fiskveiðiárið 2015/2016 auk aflaheimilda sem höfðu verið fluttar frá fyrra fiskveiðiári. Úthlutunin var byggð á því að [S] væri eina skipið í byggðarlaginu sem hefði landað afla á tímabilinu 1.-30. nóvember 2015 og þar með uppfyllt ákvæði 4. gr. reglugerðar nr. 605/2015 og auglýsingar (V) nr. 1118/2015.

      Afladagbók [S] vegna veiða skipsins í nóvember 2015, var ekki skilað til Fiskistofu innan tveggja vikna frá lokum mánaðarins eins og mælt var fyrir um í 1. mgr. 9. gr. þágildandi reglugerðar nr. 557/2007, um afladagbækur.

      Hinn 29. janúar 2016 sendi Fiskistofa bréf til útgerðaraðila [S] þar sem útgerðinni var tilkynnt um ákvörðun stofnunarinnar um að svipta skipið veiðileyfi frá 16. febrúar 2016 þar til skil hefðu verið gerð á afladagbókinni.

      Afladagbókinni vegna veiða skipsins í nóvember 2015 var skilað til Fiskistofu þann 8. mars 2016.

      Með bréfi, dags. 13. apríl 2016, tilkynnti Fiskistofa að misræmi væri á milli afladagbókar skipsins og STK kerfis, sjálfvirks staðsetningar- og tilkynningarskyldukerfis skipsins, varðandi það hvort skipið hefði farið úr höfn 30. nóvember 2015 og að það misræmi benti til þess að afladagbókin gæfi ekki rétta mynd af veiðum skipsins. Frestur til að senda andmæli eða athugasemdir var veittur til og með 30. apríl 2016. Engar athugasemdir eða andmæli bárust Fiskistofu.

Með bréfi, dags. 19. ágúst 2016, tilkynnti Fiskistofa kæranda að stofnunin áformaði að afturkalla ákvörðun um úthlutun byggðakvóta til skipsins [S], dags. 6. janúar 2016. Þar kemur fram m.a. að athugun Fiskistofu hafi leitt í ljós að afladagbók [S], vegna veiða skipsins í nóvember 2015, hafi ekki verið skilað innan tveggja vikna frá lokum mánaðarins eins og mælt sé fyrir um í 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 557/2007, um afladagbækur. Enginn hafi verið skráður í áhöfn skipsins frá 1. janúar 2015 til 20. janúar 2016 og einnig hafi athugun Fiskistofu á STK ferlum sem skráðust á [S] leitt í ljós að skipið hafi ekki farið úr höfn 30. nóvember 2015. Engin talstöðvartilkynning hafði borist til Landhelgisgæslu Íslands um að [S] hefði látið úr höfn þann dag. Þá hafi athugun Fiskistofu á STK ferlaskráningu [S] leitt í ljós tilteknar upplýsingar um ferðir skipsins. Fiskistofa hafi 13. apríl 2016 sent bréf til útgerðaraðila [S] og hafi útgerðinni verið tilkynnt um að misræmi væri milli afladagbókar skipsins og STK kerfis varðandi það hvort skipið hefði farið úr höfn 30. nóvember 2015 og að það misræmi benti til þess að afladagbókin gæfi ekki rétta mynd af veiðum skipsins. Frestur hafi verið veittur til 30. apríl 2016 til að skila inn andmælum eða athugasemdum. Engin andmæli eða athugasemdir hafi borist Fiskistofu. Þá hafi Fiskistofa haft símasamband við Akraneshöfn. Að sögn löggilts vigtarmanns, sem skráður hafi verið á vigtarnótuna sem skilað hafi verið með umsókn um byggðakvóta til [S], hafi þeim 25 kg af þorski sem skráð hafi verið á skipið umræddan dag ekki verið landað úr skipinu í höfninni. Með vísan til alls þessa hafi Fiskistofa tekið málið til meðferðar í þeim tilgangi að taka ákvörðun um hvort eldri ákvörðun stofnunarinnar, dags. 6. janúar 2016, um að úthluta 267 þorskígildistonnum af byggðakvóta Bíldudals til [S] verði afturkölluð með vísan til 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Áður en að ákvörðun yrði tekin væri kæranda gefinn kostur á að koma að andmælum eða athugasemdum, sbr. 13. gr. sömu laga sem skyldu hafa borist eigi síðar en 6. september 2016.

Með bréfi, dags. 6. september 2016, mótmælti lögmaður kæranda áformum Fiskstofu um að afturkalla úthlutun umrædds byggðakvóta og var það rökstutt með því að af meðfylgjandi samantektum, svo og fyrirliggjandi undirrituðum vigtarseðli vigtarmanns Akraneshafnar, megi ráða að það sé með öllu ástæðulaust fyrir Fiskistofu að hafa efasemdir um að afla sem hafi verið skráður á skipið [S] og veiddur um borð í skipinu, hafi verið landað í Akraneshöfn 30. nóvember 2015. Ekki sé hægt að skýra hvers vegna ferlakerfi skipsins virki ekki rétt en verið geti að gleymst hafi að lögskrá á skipið, aflinn hafi verið veiddur á sjóstöng á skipið og hafi verið tveir menn um borð, fyrirsvarsmaður kæranda og annar aðili. Skipið hafi bilað og veiðarfæri líka og hafi því verið siglt með það í viðgerð á Akranes þótt ferðin hafi átt að enda í Hafnarfirði. Þá hafi kærandi ætlað að færa afladagbók síðar en því ekki verið lokið. Einnig barst Fiskistofu bréf frá kæranda, dags. 6. september 2016, með tilteknum athugasemdum við bréf stofnunarinnar, dags. 19. ágúst 2016.

Með bréfi, dags. 13. september 2016, tók Fiskistofa ákvörðun um að afturkalla úthlutun byggðakvóta til skipsins [S]. Þar er m.a. vísað til þess að Fiskistofa hafi yfirfarið þau gögn sem kærandi skilaði með umsókn um úthlutun byggðakvóta Bíldudals til [S]. Umsókninni hafi fylgt m.a. vigtarseðill frá Akraneshöfn, dags. 30. nóvember 2015, þar sem komi fram að [S] hafi landað 25 kg af þorski þann sama dag og að aflinn hafi verið veginn á hafnarvoginni af löggiltum vigtarmanni. Athugun Fiskistofu hafi leitt í ljós að afladagbók [S], vegna veiða skipsins í nóvember 2015, hafi ekki verið skilað til Fiskistofu innan tveggja vikna frá lokum mánaðarins eins og mælt sé fyrir um í 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 557/2007, um afladagbækur. Af því tilefni hafi Fiskistofa sent bréf til útgerðar skipsins, dags. 29. janúar 2016, þar sem tilkynnt hafi verið ákvörðun stofnunarinnar um að svipta skipið veiðileyfi frá 16. febrúar 2016 þar til skil hefðu verið gerð á afladagbókinni. Hinn 8. mars 2016 hafi Fiskistofu borist afladagbók skipsins vegna nóvember 2015. Þar hafi verið skráð að 30. nóvember 2015 hefði skipið farið til veiða og að tveir menn hefðu verið í áhöfn. Veiðiferðin hafi staðið yfir í hálfa klukkustund og eitt veiðarfæri verið notað. Aflinn hafi verið þorskur og áætluð þyngd hans hefði verið 25 kg. Aflinn hafi fengist á staðsetningunni 64°18´N og 22°08´V og honum verið landað samdægurs í höfn nr. 035 (Akraneshöfn).

Athugun Fiskistofu á lögskráningum á [S] hafi hins vegar leitt í ljós að enginn hafði verið skráður í áhöfn skipsins frá 1. janúar 2015 til 20. janúar 2016. Einnig hafi athugun Fiskistofu á STK ferlum sem skráðust á [S] leitt í ljós að skipið hafi ekki farið úr höfn 30. nóvember 2015. Auk þess hafi Fiskistofa kannað hvort talstöðvartilkynning hefði komið til Landhelgisgæslu Íslands um að [S] hefði látið úr höfn þann dag. Engin slík tilkynning hafði borist til Landhelgisgæslu Íslands. Þá hafi athugun Fiskistofu á STK ferlaskráningu [S] leitt í ljós að 27. október 2015 hafi skipinu verið siglt frá Hafnarfjarðarhöfn til Akraneshafnar. Næsta dag hafi skipinu verið siglt úr Akraneshöfn í slippinn á Akranesi. Á tímabilinu frá 6. nóvember 2015 til 26. nóvember 2015 hafi komið sendingar frá skipinu eins og það væri að fara úr höfn en engir ferlar skráðst. Eftir 26. nóvember 2015 hafi engar sendingar komið frá skipinu og fyrsta sending eftir þann dag hafi komið 10. janúar 2016 þegar skipinu hafi verið siglt frá Akranesi til Hafnarfjarðarhafnar. Fiskistofa hafi sent bréf til útgerðaraðila [S]. Þar hafi útgerðinni verið tilkynnt um að misræmi væri milli afladagbókar skipsins og STK kerfis varðandi það hvort skipið hefði farið úr höfn 30. nóvember 2015 og að það misræmi benti til þess að afladagbókin gæfi ekki rétta mynd af veiðum skipsins. Útgerðinni hafi verið veittur tiltekinn frestur til að andmæla eða koma á framfæri athugasemdum vegna áforma Fiskistofu um afturköllun byggðakvótans. Í andmælum fyrirsvarsmanns kæranda, dags. 6. september 2016, segi að hann kunni ekki skýringu á þessu því að ekkert hafi verið gert um borð í skipinu sem hefði átt að geta orðið til þess að fjarvöktunarbúnaður þess hætti að senda boð. Fiskistofa hafi haft símasamband við Akraneshöfn vegna málsins. Að sögn löggilts vigtarmanns, sem skráður sé á vigtarnótuna sem skilað hafi verið með umsókn um byggðakvóta til [S] hafi þeim 25 kg af þorski sem skráð hafi verið á skipið umræddan dag, ekki verið landað úr skipinu í höfninni. Þess í stað hafi fyrirsvarsmaður kæranda komið akandi með aflann að hafnarvoginni og beðið um að þorskurinn yrði vigtaður og skráður á [S] því að skipið þyrfti að landa afla þennan dag til að uppfylla ákvæði reglugerðar um byggðakvóta.

Niðurstaða Fiskistofu var sú að engar upplýsingar hafi skráðst í sjálfvirkt eftirlitskerfi um að [S] hafi farið úr höfn þann 30. nóvember 2015. Engar samtímaheimildir styðji frásagnir fyrirsvarsmanns kæranda og annars aðila um að skipið hafi látið úr höfn þann dag, en upplýsingar um sjóferðir og veiðar skuli skráðar með margvíslegum hætti sem skipstjóri sé ábyrgur fyrir. Skipstjóri fiskiskips beri í fyrsta lagi ábyrgð á því að skipið fari ekki úr höfn án þess að áhöfn hafi verið lögskráð. Í öðru lagi beri hann ábyrgð á því að tilkynna brottför úr höfn handvirkt til Landhelgisgæslu Íslands og í þriðja lagi að skip fari ekki úr höfn fyrr en eftirlitsstöð hafi staðfest að sjálfvirkur auðkennis- og staðsetningarbúnaður sé virkur. Í fjórða lagi beri honum að senda afladagbók skips til Fiskistofu áður en 15 dagar séu liðnir frá lokum hvers almanaksmánaðar sem veiðarnar fóru fram. Útgerð skipsins verði að bíða hallann af því að staðhæfingar í andmælum fyrirsvarsmanns kæranda fái ekki stuðning í gögnum málsins. Þá bendi ekkert til þess að sjálfvirkt auðkennis- og staðsetningarkerfi skipsins hafi bilað 30. nóvember 2015. Fiskistofa taldi því að ekki hafi verið nægilega sýnt fram á að þeim 25 kg af þorski sem færð hafi verið á hafnarvog Akraneshafnar 30. nóvember 2015, vegin þar og skráð sem afli [S] hafi verið landað úr skipinu. Þar sem skilyrði úthlutunar hafi í þessu ljósi ekki verið uppfyllt, hafi Fiskistofa ekki haft heimild til að úthluta 267 þorskígildistonnum af byggðakvóta Vesturbyggðar vegna Bíldudals til [S].

Eins og atvikum málsins væri lýst, sbr. framanritað, og með vísan til þeirrar niðurstöðu að ekki hafi verið sýnt fram á að [S] hafi farið á sjó 30. nóvember 2015, geti útgerð skipsins ekki átt réttmætar væntingar um að hin ólögmæta úthlutun byggðakvóta til skipsins komi til framkvæmda.

Einnig segir í ákvörðuninni að samkvæmt c-lið 1. mgr. 29. gr. reglugerðar nr. 80/2013, um vaktstöð siglinga og eftirlit með umferð skipa, skuli skip sem eru styttri en 24 metrar og sigla á þjónustusvæði sjálfvirks auðkenniskerfis AIS á metrabylgju, tilkynna brottför og komur í höfn og auk þess staðsetningu sína í gegnum sjálfvirkt auðkenniskerfi eigi sjaldnar en á 15 mínútna fresti. Samkvæmt ferlaskráningu [S] hafi skipið ekki látið úr höfn 30. nóvember 2015. Landhelgisgæslu Íslands hafi ekki heldur borist tilkynningar, gegnum talstöð, um að skipið hefði látið úr höfn eða komið til hafnar. Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 770/2008, um fjareftirlit, sé fiskiskipi óheimilt að hefja veiðiferð fyrr en eftirlitsstöð Landhelgisgæslu Íslands og Fiskistofa hafa staðfest að fjareftirlitsbúnaður sé um borð í skipi og að hann starfi eðlilega. Einnig skuli skipstjóri skips tilkynna eftirlitsstöðinni handvirkt þegar haldið sé úr höfn og þegar komið sé til hafnar. Samkvæmt upplýsingum sem Fiskistofa hafi aflað frá Landhelgisgæslu Íslands hafi engin handvirk tilkynning borist frá [S] 30. nóvember 2015, hvorki um brottför skipsins frá Akranesi né komu þess í höfn.

Ennfremur segir þar að samkvæmt 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 geti stjórnvald afturkallað ákvörðun sína, sem tilkynnt hafi verið málsaðila, að eigin frumkvæði þegar ákvörðun sé ógildanleg. Sú ákvörðun Fiskistofu að úthluta 267 þorskígildistonnum af byggðakvóta til [S] hafi verið byggð á þeirri forsendu að skipið hefði veitt 100% þess afla í kvótabundnum tegundum botnfiska sem skip sem skráð voru á Bíldudal hafi landað á tímabilinu frá 1. nóvember 2015 til 30. nóvember 2015. Athugun Fiskistofu vegna málsins hafi leitt í ljós að ekki hafi verið sýnt fram á með nægilegri vissu að [S] hafi farið á sjó í nóvember 2015. Því verði sá afli sem skráður hafi verið sem afli [S] 30. nóvember 2015 ekki lagður til grundvallar úthlutun greinds byggðakvóta, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 605/2015 eins og henni hafi verið breytt að ósk sveitarstjórnar Vesturbyggðar með staðfestingu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins með auglýsingu (V) nr. 1118/2015. Ákvörðun Fiskistofu um að úthluta byggðakvóta til skipsins hafi verið efnislega ólögmæt og haldin verulegum annmarka í skilningi stjórnsýsluréttar og sé hún ógildanleg samkvæmt 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með vísan til ofangreinds hafi Fiskistofa tekið ákvörðun um að afturkalla ákvörðun stofnunarinnar, dags. 6. janúar 2016, um úthlutun 267 þorskígildistonna byggðakvóta Vesturbyggðar vegna Bíldudals til skipsins [S].

Þá kom þar fram að ákvörðunin væri kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins innan þriggja mánaða frá því að hún var tilkynnt málsaðila, sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 1. mgr. 29. gr. sömu laga.

 

 

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Með bréfi, dags. 12. desember 2016, sem barst ráðuneytinu 15. sama mánaðar, kærði [Y ehf.], [X hdl.], f.h. kæranda, framangreinda ákvörðun Fiskistofu, dags. 13. september 2016, til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Í stjórnsýslukærunni er m.a. vísað til meðfylgjandi gagna, þ.m.t. skýrslna af vitnum sem kærandi telji að varpi ljósi á það, sem hafi verið fyrirliggjandi að mati kæranda, að umræddur afli hafi með réttu verið skráður á skipið [S], enda veiddur um borð í skipinu. Aflanum hafi verið landað í Akraneshöfn 30. nóvember 2015, líkt og staðfest sé af löggiltum vigtarmanni Akraneshafnar. Að mati kæranda hafi Fiskistofu borið að afla sér aðgengilegra upplýsinga áður en ákvörðun hafi verið tekin 13. september 2016. Meðfylgjandi stjórnsýslukærunni sé vitnaskýrsla annars aðila, dags. 14. nóvember 2016. Þá liggi fyrir upplýsingar frá starfsmanni [K ehf.], þess efnis að skipið [S] hafi siglt fyrir eigin vélarafli úr skipalyftunni á Akranesi kl. 12.00 þann 30. nóvember 2015. Að öllu virtu sé ekkert sem bendi til annars en að núgildandi aflaskráning Fiskistofu sé rétt. Samkvæmt útprentun af vef Fiskistofu, dags. 12. desember 2016, hafi skipið [S] landað þann 30. nóvember 2015 25 kg af óslægðum afla í Akraneshöfn og veiðarfærið verið sjóstöng. Þá varði deilumálið úthlutun byggðakvóta vegna fiskveiðiársins 2015/2016 sem hafi verið liðið 31. ágúst 2016. Ákvörðun Fiskistofu feli í sér afturköllun á tímabundnum veiðirétti sem hafi fallið niður á miðnætti 31. ágúst 2016 og sé því að formi til markleysa.

Eftirtalin gögn fylgdu stjórnsýslukærunni í ljósritum: 1) Útprentun af vef Fiskistofu, dags. 12. desember 2016, um skipið [S]. 2) Tölvubréf, dags. 22. september 2016. 3) Bréf Fiskistofu, dags. 24. maí 2016. 4) Auglýsing Fiskistofu (V) um úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2015/2016, m.a. í Vesturbyggð. 5) Auglýsing um úthlutun byggðakvóta í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu, dags. 18. desember 2015, m.a. í Vesturbyggð. 6) Bréf Vesturbyggðar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 9. desember 2015. 7) Umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta, dags. 4. janúar 2016 og samningur um ráðstöfun afla til vinnslu hjá tiltekinni fiskvinnslu, dags. sama dag. 8) Vigtarseðill, dags. 30. nóvember 2015. 9) Umsóknir annarra aðila um úthlutun byggðakvóta í byggðarlaginu, dags. 2. og 14. desember 2015, ásamt samningum um ráðstöfun afla til vinnslu hjá tiltekinni fiskvinnslu. 10) Bréf Fiskistofu til kæranda, dags. 6. janúar 2016, um úthlutun byggðakvóta til skipsins [S]. 11) Bréf Fiskistofu til annarra umsækjenda um byggðakvóta í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2015/2016. 12) Kæra [B ehf.] til ráðuneytisins vegna úthlutunar byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2015/2016. 13) Bréf Fiskistofu til kæranda, dags. 29. janúar 2016. 14) Ljósrit úr afladagbók [S], dags. 30. nóvember 2015. 15) Ljósrit af mynd af uppgefnum veiðistað [S]. 16) Bréf Fiskistofu til kæranda, dags. 13. apríl 2016. 17) Fundargerð 748. fundar bæjarráðs Vesturbyggðar, dags. 3. nóvember 2015. 18) Tölvubréf, dags. 23. september 2016. 19) Tölvubréf, dags. 27. september 2016. 20) Bréf Fiskistofu til kæranda, dags. 19. ágúst 2016. 21) Bréf [Y ehf.] til Fiskistofu, dags. 6. september 2016. 22) Bréf kæranda til Fiskistofu, dags. 6. september 2016. 23) Bréf kæranda til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 24. apríl 2016. 24) Vigtarseðill fyrir afla [S], dags. 30. nóvember 2015. 25) Bréf Fiskistofu til kæranda með hinni kærðu ákvörðun, dags. 13. september 2016. 26) Útprentun úr Hlutafélagaskrá, dags. 23. september 2016. 27) Fundargerð 716. fundar bæjarráðs Vesturbyggðar, dags. 22. október 2014. 28) Fundargerð 743. fundar bæjarráðs Vesturbyggðar, dags. 6. október 2015. 29) Fundargerð 747. fundar bæjarráðs Vesturbyggðar, dags. 27. október 2015. 30) Fundargerð fundar atvinnu- og menningarráðs Vesturbyggðar, dags. 9. nóvember 2015. 31) Fundargerð 748. fundar bæjarráðs Vesturbyggðar, dags. 3. nóvember 2015. 32) Fundargerð 751. fundar bæjarráðs Vesturbyggðar, dags. 10. nóvember 2015. 33) Fundargerð 752. fundar bæjarráðs Vesturbyggðar, dags. 8. desember 2015. 34) Fundargerð 754. fundar bæjarráðs Vesturbyggðar, dags. 15. janúar 2016. 35) Tölvubréf, dags. 19. september 2016. 36) Tölvubréf, dags. 20. september 2016. 37) Haffærisskírteini fyrir [S], dags. 27. október og 26. nóvember 2015. 38) Lögskráningar á skipið [S] tímabilið 1. janúar 2015 – 31. desember 2015. 39) Tölvubréf, dags. 22. september 2016 og tölvubréf, dags. 21. september 2016. 40) Tölvubréf, dags. 30. september 2016. 41) Úrskurður atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 15. júní 2016. 42) Bréf, dags. 29. nóvember 2016. 43) Skýrsla, dags. 14. nóvember 2016. 44) Skýrsla, dags. 9. desember 2016.     

Með bréfi, dags. 21. desember 2016, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um málið, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.

Með bréfi, dags. 25. janúar 2017, barst ráðuneytinu umsögn Fiskistofu um málið. Þar segir m.a. að Fiskistofa telji að málsmeðferð stofnunarinnar hafi verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðar reglur stjórnsýsluréttar og að staðfesta beri ákvörðunina. Fiskistofa hafni því að stofnunin hafi ekki rannsakað málið ítarlega áður en ákvörðun hafi verið tekin í málinu. Stofnunin hafi kannað afladagbókarskil [S] og þegar í ljós hafi komið að afladagbók vegna nóvember 2015 hafði ekki verið skilað hafi stofnunin leitað skýringa á því frá útgerð skipsins. Stofnunin hafi einnig leitað upplýsinga um sendingar frá sjálfvirku auðkenniskerfi skipsins (AIS) til að kanna hvort þar væri að finna vísbendingar um að skipið hefði farið á sjó 30. nóvember 2015. Fiskistofa hafi haft samband við Landhelgisgæslu Íslands til að kanna hvort skipstjóri skipsins hafi haft samband við Landhelgisgæsluna og tilkynnt um brottför skipsins úr Akraneshöfn 30. nóvember 2015. Lögskráning áhafnar skipsins hafi verið könnuð og ferlar um siglingar skipsins í nóvember 2015. Þá hafi Fiskistofa haft samband við hafnarvigtarmann Akraneshafnar sem hafi lýst því hvernig vigtun og skráningu aflans, sem skráður hafi verið á [S], hafði borið að. Að lokum hafi Fiskistofa sent bréf til útgerðar skipsins, þar sem málavöxtum og því sem fram hafi verið komið hafi verið lýst og útgerðinni verið gefinn kostur á að koma að andmælum eða athugasemdum. Útgerðin hafi skilað andmælum ásamt yfirlýsingu nafngreinds aðila um að hann hafi farið, ásamt fyrirsvarsmanni kæranda, á sjó á skipinu [S] 30. nóvember 2015 og að í þeirri sjóferð hafi þeir veitt 25 kg af þorski með því að nota sjóveiðistangir. Kærandi hafi engar athugasemdir gert við málsmeðferðina né framkvæmd rannsóknarinnar og ekki bent á nein atriði sem hann hafi talið þörf á að yrðu rannsökuð frekar. Fiskistofa hafi uppfyllt rannsóknarskyldu sína og tekið málið til ákvörðunar. Kærandi haldi því fram að sýnt hafi verið fram á að aflinn sem mál þetta snúist um hafi verið réttilega skráður á skipið [S] enda hafi hann verið veiddur um borð í skipinu. Fiskistofa geti ekki fallist á þetta. Stofnunin telji að málsmeðferðin hafi leitt það í ljós að ólíklegt sé að skipið hafi farið á sjó 30. nóvember 2015 og veitt þann afla sem um ræði. Kærandi vísi til yfirlýsingar annars aðila sem skilað hafi verið til Fiskistofu með andmælum útgerðar [S] þess efnis að hann hafi farið í sjóferð með skipinu ásamt fyrirsvarsmanni kæranda frá slippnum á Akranesi 30. nóvember 2015 í þeim tilgangi að sigla skipinu til Hafnarfjarðar. Utan við Akranes hafi þeir veitt nokkra þorska en bilun hafi komið upp í skipinu og þeir þurft að snúa til Akraness aftur. Fiskistofa bendi á að tilvitnuð yfirlýsing þess aðila sem kærandi segir hafa verið með í umræddri sjóferð hafi verið meðal þeirra gagna sem litið hafi verið til þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Yfirlýsingin hafi verið efnislega samhljóða andmælum sem fyrirsvarsmaður kæranda hafi skilað á sama tíma til Fiskistofu vegna málsins. Yfirlýsingar mannanna tveggja fái hins vegar ekki stoð í öðrum gögnum málsins. Í fyrsta lagi hafi sjálfvirkt auðkenniskerfi skipsins enga brottför skráð úr höfn 30. nóvember 2015 og engir ferlar hafi verið skráðir á skipið í ferlaskráningarkerfi sem taki við tilkynningum úr sjálfvirku auðkenniskerfi þess. Í öðru lagi hafi Landhelgisgæslu Íslands engin fjarskiptatilkynning borist um að skipið hafi farið úr höfn eða komið til hafnar þennan dag. Í þriðja lagi hafi engin áhöfn verið lögskráð á skipið umræddan dag. Fiskistofa hafi byggt hina kærðu ákvörðun meðal annars á því að ef frásagnir aðila sem málið varði væru ekki í samræmi við gögn sem hafi orðið til við lögskyldar skráningar, upplýsingagjöf til óháðra aðila og sjálfvirkar vélrænar skráningar gagna um ferðir skipsins, yrði ekki komist hjá því að telja síðarnefndu gögnin traustari grundvöll fyrir ákvörðun stjórnvalda. Einnig fjallar Fiskistofa um sönnunargildi skýrslu um rannsókn vegna málsins sem kærandi hafi sent til ráðuneytisins og vitnað sé til í rökstuðningi með kærunni. Fiskistofa hafni þeirri staðhæfingu kæranda að hafnarvigtarmaður Akraneshafnar hafi staðfest að umræddum afla hafi verið landað úr [S] í Akraneshöfn 30. nóvember 2015. Fiskistofa bendi á að hin kærða ákvörðun hafi á engan hátt verið byggð á því að stofnunin hafi talið að [S] hafi verið í skipalyftu á Akranesi umræddan dag, né á því að skipið hafi ekki verið fært um að sigla fyrir eigin vélarafli. Ákvörðun Fiskistofu hafi verið byggð á því að gögn málsins hafi borið með sér að engin áhöfn hafi verið um borð í skipinu og að skipið hafi ekki farið úr höfn þennan dag og þar af leiðandi sé útilokað að það hafi verið við veiðar á þeim stað sem afladagbók bar með sér að nefnd 25 kg af þorski hefðu verið veidd.

Það sé mat Fiskistofu að þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin hafi öll trúverðug gögn málsins bent til þess að yfirgnæfandi líkur væru á því að [S] hafi ekki farið á sjó 30. nóvember 2015, skipið hafi verið án áhafnar og því hafi skipið ekki veitt þann afla sem ekið hafi verið með að hafnarvoginni á Akranesi þennan dag og hafnarvigtarmaður verið beðinn að vigta og skrá á skipið. Fiskistofa telji að leitt hafi verið í ljós að [S] hafi ekki farið úr höfn 30. nóvember 2015, engin áhöfn hafi verið á skipinu og að það hafi ekki verið við fiskveiðar. Skipið hafi því ekki landað neinum afla í kvótabundnum tegundum á tímabilinu frá 1. nóvember 2015 til 30. nóvember 2015 og það hafi þar af leiðandi ekki uppfyllt ákvæði reglugerðar nr. 605/2015 og auglýsingar (V) nr. 1118/2015 sem giltu um úthlutun byggðakvóta til Vesturbyggðar vegna Bíldudals. Málsmeðferð Fiskistofu hafi leitt í ljós að ákvörðun stofnunarinnar, dags. 6. janúar 2016, um úthlutun byggðakvóta til skipsins hafi verið ólögmæt að efni til, þar sem kærandi hafi í raun ekki uppfyllt skilyrði sem sett höfðu verið fyrir úthlutun byggðakvóta Vesturbyggðar vegna Bíldudals. Ákvörðunin hafi því verið haldin verulegum annmarka í skilningi stjórnsýsluréttar. Slíkar ákvarðanir séu að jafnaði ógildanlegar og því geti stjórnvald afturkallað þær samkvæmt 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. t.d. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4132/2004 og máli nr. 1450/1995. Varðandi athugasemdir kæranda um að ekki fáist séð hvaða tilgangi hin kærða ákvörðun Fiskistofu þjóni og sé markleysa vísi Fiskistofa til lögmætisreglu stjórnsýsluréttar sem feli það í sér að ákvarðanir stjórnvalda skuli vera í samræmi við lög. Með hinni kærðu ákvörðun hafi Fiskistofa afturkallað fyrri ákvörðun sína um úthlutun byggðakvóta til fiskiskips sem síðar hafi komið í ljós að ólíklegt var að uppfyllti skilyrði til slíkrar úthlutunar. Stjórnvaldi sem gæti almannahagsmuna sé rétt að leiðrétta ákvarðanir sem byggst hafi á röngum eða villandi upplýsingum og leitt hafi til þess að einstaka aðilum hafi verið úthlutað takmörkuðum réttindum sem öðrum aðilum í sömu aðstöðu hafi verið synjað um. Ef fallist yrði á röksemd kæranda um að hin kærða ákvörðun sé markleysa hafi hann ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr stjórnsýslukærunni og því beri að vísa henni frá.

Fiskistofa telji að málsmeðferð stofnunarinnar hafi leitt í ljós að ólíklegt verði að teljast að [S] hafi farið á sjó 30. nóvember 2015 og aflað þeirra 25 kg af þorski sem ekið hafi verið með að hafnarvoginni á Akranesi sama dag og óskað eftir að yrðu vegin og skráð sem afli [S]. Fiskistofa telji að þau gögn sem kærandi hafi lagt fram til stuðnings kæru sinni gefi enn frekara tilefni til að draga í efa að skipinu hafi verið haldið til veiða þennan dag. Taka verði mið af því við mat á sönnun um atvik málsins. Landhelgisgæsla Íslands hafi staðfest að stofnuninni hafi engin tilkynning borist um að skipið hafi farið úr höfn 30. nóvember 2015. Skráning á sendingum úr sjálfvirku auðkenniskerfi skipsins beri ekki með sér að skipið hafi yfirgefið höfnina við slippinn á Akranesi þennan dag og enginn hafi heldur verið lögskráður í áhöfn skipsins. Fiskistofa telji að kærandi verði að bíða hallann af því að þessa sönnun skorti og því beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.   

Eftirtalin gögn fylgdu umsögn Fiskistofu í ljósritum: 1) Hin kærða ákvörðun, dags. 13. september 2016. 2) Auglýsing um úthlutun byggðakvóta af heimasíðu Fiskistofu. 3) Auglýsingar í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. 4) Bréf bæjarstjóra Vesturbyggðar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 9. desember 2015. 5) Auglýsing (V) nr. 1118/2015. 6) Umsókn [H] um byggðakvóta fyrir skipið [A]. 7) Umsókn kæranda um byggðakvóta til [S]. 8) Umsókn [B ehf.] um byggðakvóta fyrir skipið [Þ]. 9) Ákvörðun Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta fyrir [S]. 10) Ákvörðun Fiskistofu um að synja um úthlutun byggðakvóta til [Þ]. 11) Ákvörðun Fiskistofu um að synja um úthlutun byggðakvóta til [A]. 12) Yfirlit um úthlutun byggðakvóta Vesturbyggðar vegna Bíldudals. 13) Stjórnsýslukæra [Ó] f.h. [B ehf.] 14) Bréf frá [Ó] f.h. [B ehf.], dags. 13. janúar 2016. 15) Tölvupóstur [B ehf.] til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 12. febrúar 2016. 16) Umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæru [B ehf.] 17) Yfirlit um lögskráningar á [S] árið 2015. 18) Kort með ferlaskráningum [S] frá 27. október 2015 til 9. janúar 2016, ásamt skýringum. 19) Tilkynning um að [S] sé svipt veiðileyfi vegna vanskila afladagbókar fyrir nóvember 2015. 20) Ljósrit af afladagbók [S] vegna nóvember 2015. 21) Kort af staðsetningu veiðistaðar samkvæmt færslu í afladagbók. 22) Andmælabréf vegna ætlaðs brots á ákvæðum reglugerðar nr. 557/2007, um afladagbækur. 23) Fundargerð bæjarráðs Vesturbyggðar frá 3. nóvember 2015 (248. fundur). 24) Minnisblað Fiskistofu um símtal við Landhelgisgæslu Íslands. 25) Ljósrit af leyfi [S] til fiskveiða í atvinnuskyni.

Með bréfi, dags. 30. janúar 2017, sendi ráðuneytið [Y ehf.], [X hdl.], f.h. kæranda, ljósrit af framangreindri umsögn Fiskistofu, dags. 25. janúar 2017, og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir við umsögnina.

Með bréfi, dags. 8. febrúar 2017, barst ráðuneytinu svarbréf frá [X hdl.] f.h. kæranda. Þar segir m.a. að með ákvörðun Fiskistofu sé sönnunargildi yfirlýsingar sem gefin hafi verið Fiskistofu hafnað. Mat Fiskistofu sé að yfirlýsingar mannanna tveggja fái ekki stoð í öðrum gögnum málsins. Þau önnur gögn málsins sem séu ekki í samræmi við yfirlýsinguna séu samkvæmt ákvörðun og umsögn Fiskistofu sjálfvirkt auðkenniskerfi báta og skipa en skipið [S] skráist ekki í kerfinu umræddan dag, það að skipstjóri tilkynnti ekki hafnarverði um brottför skips og að skipstjóri hafi ekki lögskráð sig sjálfan eða annan aðila sem skipverja á skipið. Samkvæmt upplýsingum sem lögmaður kæranda hafi frá stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands, sem haldi um sjálfvirka auðkenniskerfið fyrir skip og báta (AIS kerfið), þá sé það algengt að bátar og skip falli út eða komi ekki inn á sjálfvirkt auðkenniskerfi, þó í ljós komi síðar að viðkomandi bátar eða skip hafi verið á sjó. Skýringar geti verið margs konar, t.d. bilun í þessum sjálfvirka búnaði og síðan sé það algengt að staðsetning báta og skipa mjög nálægt landi valdi því að bátar komi ekki fram í kerfinu. Þá sé búnaður í smærri bátum svokallaður AIS B búnaður ófullkomnari en AIS A búnaður sem sé í stærri bátum og skipum. Þar komi til möguleg áhrif af viðgerð á rafkerfi skipsins [S] skömmu fyrir 30. nóvember 2015 á sjálfvirkan AIS B búnað bátsins. Um það sé ekki efast að skipstjóra beri skylda til að tilkynna hafnaryfirvöldum þegar látið sé úr höfn og að sú skylda hvíli á skipstjórum að áhöfn sé lögskráð. Fyrirsvarsmaður kæranda hafi tekið það fram í meðfylgjandi skýrslu að honum sé þetta ljóst. Hitt sé annað að brot á reglu um tilkynningu þegar látið sé úr höfn, leiði ekki til þess að skip sé í höfn, ekki frekar en sú staðreynd að enginn sé lögskráður um borð í bát eða skipi leiði til þess að enginn sé um borð í bát eða skipi. Þegar skipið [S] hafi farið til veiða 30. nóvember 2015 hafi það verið með nýútgefið haffærisskírteini frá Samgöngustofu. Vegna ábendingar í umsögn Fiskistofu um frávísun þá geri stjórnsýslulög nr. 37/1993 ráð fyrir því að unnt sé að kæra stjórnvaldsákvarðanir til æðra stjórnvalds til þess að fá þær felldar úr gildi eða til að fá ákvörðun breytt. Ekki sé heimild í stjórnsýslulögum nr. 37/1993 til þess að krefjast frávísunar á stjórnsýslukæru. Að mati kæranda sé ákvörðun Fiskistofu, dags. 13. september 2016, markleysa. Ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. janúar 2016, hafi verið markaður tími til 31. ágúst 2016. Eðli málsins samkvæmt hafi ákvörðunin, dags. 6. janúar 2016, verið fallin niður eftir það tímamark.

Eftirtalin gögn fylgdu bréfi [X hdl.] f.h. kæranda, dags. 8. febrúar 2017, í ljósritum: 1) Skýrsla kæranda, dags. 29. nóvember 2016.

Með tölvubréfi, dags. 2. mars 2017, frá [X hdl.] barst ráðuneytinu ljósrit af bréfi, dags. 28. febrúar 2017, þar sem fram kemur að héraðssaksóknari hafi ákveðið að láta mál kæranda vegna kæru Fiskistofu, dags. 24. maí 2016, falla niður.

Með tölvubréfi, dags. 3. nóvember 2017, svaraði ráðuneytið fyrirspurn lögmanns kæranda sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi, dags. 31. október 2017, varðandi afgreiðslutíma málsins.

Einnig sendi ráðuneytið lögmanni kæranda tölvubréf með upplýsingum um fyrirhugaðan afgreiðslutíma málsins, dags. 8. og 22. desember 2017 og 10. og 29. janúar 2018.

 

 

Rökstuðningur

I.  Um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 gildir ákvæði 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Í 5. mgr. greinarinnar er ráðherra falið að setja með reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Skulu þau skilyrði m.a. varða skráningarstað, skráningartíma, eignarhald, skiptingu milli fiskiskipa, lágmarksverð, tryggingar fyrir greiðslum og framkvæmd úthlutunar.

Á grundvelli framangreinds ákvæðis hefur ráðherra sett reglugerð nr. 605/2015, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2015/2016. Í 1. gr. reglugerðarinnar eru talin upp almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta en þau eru: a) að skip hafi haft leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, b) að skip hafi verið skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2015 og c) að skip hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2015. Miðað skal við lögheimili einstaklinga samkvæmt þjóðskrá og heimilisfang lögaðila samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattsstjóra.

Einnig eru í 4. gr. reglugerðarinnar viðmiðanir um úthlutun aflaheimilda til einstakra fiskiskipa en samkvæmt ákvæðinu er gert ráð fyrir að skipting þess aflamarks, sem nú kemur í hlut byggðarlags, auk þess aflamarks byggðarlagsins sem kann að vera eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skuli að öðru leyti fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr. reglugerðarinnar, sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið hefur staðfest samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á, og skal skipt hlutfallslega af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið innan viðkomandi byggðarlags á tímabilinu 1. september 2014 til 31. ágúst 2015. Komi minna en 100 þorskígildiskíló í hlut fiskiskips samkvæmt framangreindum reglum fellur hlutur til þess niður og skiptist hlutur þess milli annarra fiskiskipa frá sama byggðarlagi sem uppfylla skilyrði fyrir úthlutun í samræmi við skiptingu samkvæmt úthlutunarreglum.

Þá koma fram í reglugerðinni ákvæði um skyldu fiskiskipa til að landa afla til vinnslu í byggðarlagi, sbr. 6. gr.

Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 getur ráðherra heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna sveitarstjórnar að sett verði sérstök skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda í einstökum byggðarlögum, sem víkja frá eða eru til viðbótar hinum almennu skilyrðum, enda séu þau byggð á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlaga. Sambærilegt ákvæði er í 2. gr. reglugerðar nr. 605/2015.

Sett hafa verið sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í Vesturbyggð, m.a. á Bíldudal fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 samkvæmt framangreindu ákvæði með auglýsingu (V) nr. 1118/2015, svohljóðandi: "Vesturbyggð. Ákvæði reglugerðar nr. 605 frá 3. júlí 2015 gilda um úthlutun byggðakvóta Bíldudals með eftirfarandi viðauka/breytingum: Bíldudalur. a) […]. b) Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Skipting þess aflamarks, sem nú kemur í hlut byggðarlags, auk þess aflamarks byggðarlagsins sem kann að vera eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skal að öðru leyti fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr., sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið staðfestir samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á, og skal skipt hlutfallslega, af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið, á tímabilinu 1.-30. nóvember 2015. c) […]."

Um skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa á Bíldudal í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 fer því eftir 10. gr. laga nr. 116/2006, ákvæðum reglugerðar nr. 605/2015 og auglýsingu (V) nr. 1118/2015.

 

II.  Ágreiningur í máli þessu snýst um hvort Fiskistofu hafi verið heimilt að afturkalla eldri ákvörðun sína, dags. 6. janúar 2016, um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 til skipsins [S].

Hin kærða ákvörðun í málinu, dags. 13. september 2016, er byggð á 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar kemur fram að stjórnvald geti afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði sem tilkynnt hefur verið aðila máls, þegar: 1) það er ekki til tjóns fyrir aðila, eða 2) ákvörðun er ógildanleg.

Með hinni kærðu ákvörðun, dags. 13. september 2016, var afturkölluð eldri ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. janúar 2016, um úthlutun aflamarks byggðakvóta til skipsins [S] fyrir fiskveiðiárið 2015/2016.

Ákvörðun um úthlutunina, dags. 6. janúar 2016, var byggð á því að kærandi uppfyllti skilyrði fyrir umræddri úthlutun.

Ákvörðun um afturköllun úthlutunarinnar, dags. 13. september 2016, var byggð á því að athugun Fiskistofu eftir að úthlutun byggðakvótans fór fram hafi leitt í ljós að ekki hafi verið uppfyllt skilyrði fyrir úthlutun byggðakvótans á þeim tíma sem úthlutun fór fram.

Um lagaheimild fyrir ákvörðuninni um afturköllun úthlutunarinnar var vísað til þess að umrædd eldri ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. janúar 2016, um úthlutun byggðakvóta til skipsins væri ógildanleg samkvæmt framangreindu ákvæði 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

III. Eins og gerð hefur verið grein fyrir í I hér að framan voru sett sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í Vesturbyggð, m.a. á Bíldudal fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 samkvæmt heimild í 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með auglýsingu (V) nr. 1118/2015. Samkvæmt auglýsingunni skyldi byggðakvóti Bíldudals í Vesturbyggð skiptast milli skipa sem skráð voru á Bíldudal í réttu hlutfalli við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið, á tímabilinu 1.-30. nóvember 2015, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 605/2015 og auglýsing (V) nr. 1118/2015.

      Framangreint skilyrði um að viðkomandi skip yrðu að hafa landað botnfiskafla á tímabilinu 1.-30. nóvember 2015 var með öllu ófrávíkjanlegt og nauðsynleg forsenda þess að heimilt væri að úthluta byggðakvóta til viðkomandi skipa.

      Með ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. janúar 2016, var úthlutað til skips kæranda, [S] 267 þorskígildistonnum sem var allur byggðakvóti byggðarlagsins Bíldudals í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 auk aflaheimilda sem fluttar höfðu verið frá fyrra fiskveiðiári. Ákvörðun um úthlutun byggðakvótans var byggð á því að skipið [S] hefði uppfyllt framangreind skilyrði. Úthlutunin var byggð á umsókn kæranda en umsókninni fylgdi vigtarseðill frá Akraneshöfn, dags. 30. nóvember 2015, þar sem kemur fram að [S] hafi landað 25 kg af þorski þann sama dag og að aflinn hafi verið veginn á hafnarvoginni af löggiltum vigtarmanni.    

      Eftir að úthlutun byggðakvótans fór fram leiddi athugun Fiskistofu hins vegar í ljós tiltekin atriði sem bentu til þess að skipið [S] hefði ekki farið á sjó og veitt umræddan afla þann 30. nóvember 2015.

      Afladagbók [S] vegna veiða skipsins í nóvember 2015 var ekki skilað til Fiskistofu innan tveggja vikna frá lokum mánaðarins eins og mælt var fyrir um í 1. mgr. 9. gr. þágildandi reglugerðar nr. 557/2007, um afladagbækur og tilkynnti Fiskistofa kæranda með bréfi, dags. 29. janúar 2016, um áformaða leyfissviptingu skipsins [S] frá 16. febrúar 2016 þar til skil hefðu verið gerð á afladagbókinni.

      Eftir að afladagbókinni var skilað til Fiskistofu þann 8. mars 2016 kom í ljós að misræmi var á milli afladagbókar skipsins og STK kerfis, sjálfvirks staðsetningar- og tilkynningarskyldukerfis skipsins, varðandi það hvort skipið hefði farið úr höfn 30. nóvember 2015 og að það misræmi benti til þess að afladagbókin gæfi ekki rétta mynd af veiðum skipsins.

      Athugun Fiskistofu á lögskráningum á [S] leiddi einnig í ljós m.a. að enginn hafði verið skráður í áhöfn skipsins frá 1. janúar 2015 til 10. janúar 2016. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2010, um lögskráningu sjómanna, er skipi óheimilt að láta úr höfn nema allir skipverjar hafi verið lögskráðir í áhöfn. Upplýsingar um skráningar ferla samkvæmt sendingum úr sjálfvirku staðsetningar- og tilkynningarskyldukerfi [S] bentu til að skipið hefði ekki farið á sjó 30. nóvember 2015 og að það hefði í raun ekkert farið úr höfn á tímabilinu frá 28. október 2015 til 10. janúar 2016. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 29. gr. reglugerðar nr. 80/2013, um vaktstöð siglinga og eftirlit með umferð skipa, skulu skip sem eru styttri en 24 metrar og sigla á þjónustusvæði sjálfvirks auðkenniskerfis AIS á metrabylgju, tilkynna brottför og komu í höfn og auk þess staðsetningu sína í gegnum sjálfvirkt auðkenniskerfi eigi sjaldnar en á 15 mínútna fresti. Samkvæmt ferlaskráningu [S] lét skipið ekki úr höfn 30. nóvember 2015. Landhelgisgæslu Íslands bárust heldur ekki tilkynningar, gegnum talstöð, um að skipið hefði látið úr höfn eða komið til hafnar. Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 770/2008, um fjareftirlit, er fiskiskipi óheimilt að hefja veiðiferð fyrr en eftirlitsstöð Landhelgisgæslu Íslands og Fiskistofa hafa staðfest að fjarskiptabúnaður sé um borð í skipi og að hann starfi eðlilega. Einnig kemur þar fram að skipstjóri skips skuli tilkynna eftirlitsstöðinni handvirkt þegar haldið sé úr höfn og þegar komið sé til hafnar. Samkvæmt upplýsingum sem Fiskistofa aflaði frá Landhelgisgæslu Íslands barst engin slík handvirk tilkynning frá [S] þann 30. nóvember 2015, hvorki um brottför skipsins frá Akranesi né komu þess í höfn.

      Eins og gerð hefur verið grein fyrir skulu upplýsingar um sjóferðir og veiðar skipa skráðar með margvíslegum hætti sem útgerðarmaður og/eða skipstjóri er ábyrgur fyrir, sbr. framangreind ákvæði laga og stjórnvaldsreglna. M.a. ber skipstjóra að senda afladagbók skips til Fiskistofu áður en 15 dagar eru liðnir frá lokum hvers almanaksmánaðar sem veiðarnar fóru fram. Einnig ber skipstjóri skips ábyrgð á því að skipið fari ekki úr höfn án þess að áhöfn þess hafi verið lögskráð, að tilkynna brottför skips úr höfn til Landhelgisgæslu Íslands og að skip fari ekki úr höfn fyrr en eftirlitsstöð hefur staðfest að sjálfvirkur auðkennis- og staðsetningarbúnaður sé virkur.

      Ekkert framangreindra skilyrða var uppfyllt vegna þeirrar sjóferðar sem fyrirsvarsmaður kæranda segir [S] hafa farið í og veitt umræddan afla þann 30. nóvember 2015.

      Þegar litið er til þessa er það mat ráðuneytisins að útgerð skipsins [S] verði að bíða hallann af því að staðhæfingar í andmælum fyrirsvarsmanns kæranda fái ekki stuðning í gögnum málsins.

      Ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til þess að sjálfvirkt auðkennis- og staðsetningarkerfi skipsins [S] hafi bilað þann 30. nóvember 2015.

      Engin önnur gögn eru heldur til staðar sem styðja staðhæfingar kæranda um að skipið [S] hafi farið á sjó þann dag.

      Skýringar kæranda sem liggja fyrir í þessu máli þykja hvorki trúverðugar né leiða að því líkur að kærandi hafi uppfyllt þau skilyrði sem koma fram í þeim lögum og stjórnvaldsreglum sem vísað er til hér að framan, m.a. auglýsingu (V) nr. 1118/2015.

      Þá styður framburður vigtarmanns á Akranesi ekki að framangreindar staðhæfingar kæranda eigi við rök að styðjast.

Það er afstaða ráðuneytisins að kærandi hafi ekki sýnt fram á að skipið [S] hafi uppfyllt skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í máli þessu með því að fara á sjó og veiða umræddan afla þann 30. nóvember 2015.

Þykir Fiskistofa hafa sýnt fram á það með nægjanlegum rökum að skipið hafi ekki farið á sjó þennan dag og að umræddur afli sem kærandi færði til vigtunar þann 30. nóvember 2015 hafi ekki verið veiddur af skipinu í veiðiferð þann dag.

      Þar sem skilyrði úthlutunar voru í þessu ljósi ekki uppfyllt, hafði Fiskistofa ekki heimild til að úthluta 267 þorskígildistonnum af byggðakvóta Bíldudals í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 til skipsins [S] en samkvæmt því verður að telja að Fiskistofu hafi verið rétt að hafna umsókn kæranda um úthlutun umrædds byggðakvóta.

Það breytir ekki þessari niðurstöðu þótt héraðssaksóknari hafi ákveðið að höfða ekki sakamál á hendur kæranda vegna málsins, sbr. tölvubréf lögmanns kæranda, dags. 2. mars 2017.

  

IV. Ákvörðun Fiskistofu í máli þessu, dags. 13. september 2016, er byggð á 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar kemur fram að stjórnvald geti afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði sem tilkynnt hefur verið aðila máls, þegar: 1) það er ekki til tjóns fyrir aðila, eða 2) ákvörðun er ógildanleg.

      Í málinu liggur fyrir að þrátt fyrir að ekki hafi verið uppfyllt skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á Bíldudal í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 til skipsins [S] og að Fiskistofu hafi verið rétt að hafna umsókn kæranda um úthlutun umrædds byggðakvóta, tók Fiskistofa ákvörðun um að úthluta byggðakvóta til skips kæranda, [S], fyrir fiskveiðiárið 2015/2016.

Í máli þessu reynir því á hvort Fiskistofu hafi verið rétt að afturkalla fyrri ákvörðun sína um það efni, sbr. áðurnefnt ákvæði 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. janúar 2016, um að úthluta 267 þorskígildistonnum af byggðakvóta Bíldudals í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 til skipsins [S] var byggð á þeirri forsendu að skipið hefði veitt 100% þess afla í kvótabundnum tegundum botnfisks sem skip sem skráð voru á Bíldudal veiddu á tímabilinu 1.-30. nóvember 2015.

Hin kærða ákvörðun Fiskistofu, dags. 13. september 2016, er hins vegar byggð á því að á grundvelli upplýsinga sem Fiskistofu bárust eftir að úthlutun byggðakvótans fór fram taldi Fiskistofa að ekki hafi verið sýnt fram á að skipið [S] hafi farið á sjó þann 30. nóvember 2015 og að þeim 25 kg af þorski sem færð hafi verið á hafnarvog Akraneshafnar 30. nóvember 2015, vegin þar og skráð sem landaður afli [S], hafi verið landað úr skipinu. Því verði sá afli sem skráður var sem afli [S] þann 30. nóvember 2015 ekki lagður til grundvallar úthlutun greinds byggðakvóta, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 605/2015 og auglýsingu (V) nr. 1118/2015. Þar sem skilyrði úthlutunar voru ekki uppfyllt hafi Fiskistofa ekki haft heimild til að úthluta 267 þorskígildistonna byggðakvóta til skipsins.

      Þegar litið er til atvika þessa máls og þeirra forsendna sem gerð er grein fyrir í III hér að framan er það mat ráðuneytisins að ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. janúar 2016, um að úthluta byggðakvóta til skipsins [S] hafi verið haldin verulegum annmörkum í skilningi stjórnsýsluréttar og að hún hafi verið ógildanleg samkvæmt 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þá er það mat ráðuneytisins að þrátt fyrir að Fiskistofa hafi tekið umrædda ákvörðun um að úthluta byggðakvóta til skipsins [S] hafi skilyrði fyrir afturköllun verið fyrir hendi og að afturköllun hafi farið fram með lögmætum hætti eins og atvik þessa máls liggja fyrir.

      Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að skilyrði hafi verið fyrir að afturkalla eldri ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. janúar 2016, um úthlutun byggðakvóta til skipsins [S] en samkvæmt því verður hin kærða ákvörðun Fiskistofu, dags. 13. september 2016, staðfest.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 13. september 2016, um afturköllun ákvörðunar Fiskistofu, dags. 6. janúar 2016, um úthlutun aflamarks af byggðakvóta Bíldudals í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 til skipsins [S].


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum